top of page

HANS BLÆR
Hafið þið nokkurn tíma spurt ykkur hvaða eiginleika manneskja þyrfti að hafa til þess að þið gætuð verið þess fullviss að viðkomandi væri að öllu leyti, innra sem ytra, óferjandi skíthæll og viðundur? 

Og ef ekki - Hvers vegna í ósköpunum ekki?

 

Hans Blær Viggósbur er gjálífiströll með uppleysta sjálfsmynd, ofvirka tískuvitund og egó í hjartastað. Hán er glundroðamaskína í fjölkynja líkama sem lifir fyrir það eitt að storka heiminum og trekkja upp hina viðkvæmu.

Allt frá því hán komst fyrst í tæri við hamstrahjól fjöl- og félagsmiðlunar hefur Hans Blær verið á milli tannanna á þjóðinni, sem sýpur hveljur og skríkir til skiptis, en skemmtir sér alltaf vel.

 

Þegar upp kemst að Hans Blær hefur notað nauðgunarmeðferðarheimilið Samastað til þess að svala afbrigðilegum fýsnum sínum er hugsanlegt - rétt svo hugsanlegt - að samfélagið hafi loks fengið nægju sína og þjóðin sé hætt að flissa.

 

Óskabörn ógæfunnar og Eiríkur Örn Norðdahl unnu síðast saman að leiksýningunni Illska sem hlaut sex tilnefningar til Grímunar, þar á meðal sýning ársins og leikrit ársins.

Nú matreiða þau ískalt lík tröllasamfélagsins ofan í gapandi vandláta skolta ofurmeðvitaðra hipsterkúreka og réttlætisriddara - á besta stað í borginni - og bera það fram snyrtilega niðursneitt á nýuppþvegnu silfurfati.  
Skemmtið ykkur í guðanna bænum vel.
Þetta verður tótal hatefest.

bottom of page