Please reload

Recent Posts

Viðtal við Kópavogsfréttir

August 26, 2014

1/2
Please reload

Featured Posts

Víðsjá gagnrýnir Bláskjá.

August 26, 2014

Leikdómur um Bláskjá eftir Tyrfing Tyrfingsson sem leikhópurinn Óskabörn ógæfunnar sýnir í Borgarleikhúsinu um þessar mundir.

 

Ævintýrið Bláskjár hefur einhverra hluta vegna notið mikilla vinsælda meðal íslenskra barna, eða gerði það að minnsta kosti hér einu sinni. Ég man eftir því að hafa lifað mig töluvert inn í þessa sögu sem barn, söguna af bláeygða höfðingjasyninum sem andstyggilegir sígaunar rændu og lokuðu inni í helli en blessað barnið þráði ekkert heitar en að sjá sólina, ef ég man rétt. Aumingja bláeygða höfðingjabarnið sem vondu sígaunarnir rændu, það var ekki erfitt fyrir litla bláeygða íslenska forréttindabelgi að tengja við harminn í því ástandi. Það er lítið mál að afskrifa þessa sögu sem fordómavaðal af lægstu gerð, svona ef hún er skoðuð í dag en það er eitthvað í þessu, eitthvað um þránna eftir sólinni og kannski um réttinn til að njóta hennar.

Sagan um Bláskjá og hans örlög liggur til grundvallar í nýju íslensku leikverki eftir Tyrfing Tyrfingsson sem leikhópurinn Óskabörn ógæfunnar sýnir um þessar mundir á Litla sviði Borgarleikhússins. Þar hitta áhorfendur fyrir í upphafi systkinin Valter og Ellu sem eru einmitt skírð í höfuðið á persónum úr sögunni um Bláskjá. Valter og Ella eru hinsvegar ekki lokuð í helli, þau dvelja í kjallara í húsi í Kópavoginum og þar hafa þau dvalið lengi.  Faðir þeirra systkina er þekktur og virtur stjórnmálamaður, eða var það öllu heldur, hann er nýdáinn og jarðaför hans stendur fyrir dyrum. Ella og Valter eru þarna í kjallaranum að hans frumkvæði að því er virðist en nú er hann semsagt farinn og enginn eftir í húsinu nema þau systkinin og svo Eiríkur bróðir þeirra sem býr á efri hæðum og birtist þegar líða tekur á verkið. Hann er yngsti sonurinn, óskabarnið og heitir í höfuðið á höfðingja glæpagengisins í Bláskjá, kúgaranum mikla.

Þau Valter og Ella hafa fullan hug á því að færa sig um set, nú þegar faðirinn er látinn, færa sig upp um einhverjar hæðir og fara jafnvel út fyrir hússins dyr. Samræður þeirra snúast fyrst og fremst um lífið fyrir utan, Valter lætur sig dreyma um að hitta leigubílsstjórann sem hann er í sambandi við á netinu og tælir hann með órum á sadískum nótum. Ella er hinsvegar með skvísubók í farvatninu sem hún ætlar að senda frá sér þegar allt breytist. Í þessu verki gengur allt út á sögur, rétt eins og svo oft í lífinu, persónurnar máta sig við hin ýmsu ævintýri, tjá sig um kynóra sína, fara í leiki sem byggja fyrst og fremst á sögum, hinn látni faðir er orðinn að mátulega trúverðugri goðsögu, fortíð og framtíð renna einhvern veginn saman í þessum sögum.

Sögurnar sem birtast hér fjalla fyrst og fremst um vald og valdabaráttu og verkið endurspeglar ágætlega hversu flókið valdshugtakið er. Faðirinn var sá sem stjórnaði, handhafi valdsins, feðraveldið holdgað og vandinn sem systkinin standa fyrir að föðurnum látnum er vandamál okkar allra, valdið er nefnilega þess eðlis að það er ekki alltaf hægt að staðsetja það með nákvæmum hætti, það dugar ekki alltaf að holdgera það. Hinn almáttugi faðir er dauður en valdið er hinsvegar enn til staðar, það kemur vel fram í þessu leikverki, og valdið er alls staðar, við viljum fá leiðbeiningar, láta segja okkur hvernig við eigum að haga okkur, hvað við eigum að gera og ekki gera. Við viljum beygja okkur fyrir valdinu sem birtist í ýmis konar aðhaldi og reglum, mörgum hverjum óskrifuðum. Valdið er einhvern veginn ofið í samfélagsgerðina í nútímanum, ýmsir fræðimenn hafa bent á þetta, til dæmis franski fræðimaðurinn Michel Foucault. Dauði föðursins er þannig engan veginn ávísun á frelsi undan valdinu eins og fram kemur hér. Þýlund okkar, óhreinu og gölluðu barnanna, er einfaldlega of sterk.

Hér er komið býsna magnað leikverk, sem býður ekki upp á einfaldar lausnir eða snyrtilegan endafrágang en nær hinsvegar að gera ástandi skil. Tyrfingur hefur í sínum fyrri leikverkum Grande og Skúrinn á sléttunni sýnt að hann hefur ást á jaðarpersónum, fólki sem samfélagið hafnar, fólki sem á ekki sjálfsagðan aðgang að menningunni. Bláskjár býður upp á ýmsa túlkunarmöguleikar og hefur Vignir Rafn Valþórsson leikstjóri farið áhugaverða leið að verkinu hér. Persónurnar eru allar utangarðs í einhverjum skilningi, jafnvel millistéttarkúturinn Eiríkur sem er ekki jafn sjálfsagður erfðaprins í ríki feðraveldisins og virðist í fyrstu en Arnmundur Ernst B. Björnsson túlkaði þennan dreng af öryggi. Þau Arndís Hrönn Egilsdóttir og Hjörtur Jóhann Jónsson leika systkinin Ellu og Valter, þau nálgast hlutverk sín með nokkuð ólíkum hætti, þau eru nátengd en samt ekki, lík en samt ólík, persónur í sitthvorri sögunni en samt alltaf þeirri sömu og þessi óumflýjanlegu bönd eru mjög greinileg í sýningunni. Textinn er oft stuðandi og galsinn í svartari kantinum en það er hinsvegar yfirvegun í túlkun sem gerir það að verkum að alvarleiki stöðunnar hverfur aldrei alveg sjónum. Virkilega fín nálgun hjá þeim báðum. Leikmynd Brynju Björnsdóttur er skemmtilega mótsagnakennd, kjallari sem er borulegur en samt einhvern veginn óendanlega stór, hálfgert safn til minningar um liðna tíð en líka musteri neyslumenningar og óuppfylltra langana. Tónlist Högna Egilssonar leikur svo stórt hlutverk í sýningunni, samtíminn birtist ekki síst í kjallaranum í formi tónlistar, er þeim systkinum til halds og traust í tjáningu sinni og leikjum. Sýningin er í heild sinni vel ígrunduð, það er farið vel með efniviðinn, áhorfendur fá engar lausnir á silfurfati og þurfa að vinna fyrir hlátrasköllunum, en það er alltaf gott.

Styrkur verks og sýningar felst ekki síst í því að þar er sögð flókin saga sem hver áhorfandi getur í raun túlkað með sínum hætti. Vísanir til samtímans verða aldrei uppáþrengjandi en bjóða hinsvegar upp á ýmsa áhugaverða ranghala um samfélagsgerð okkar og ástand. Bláskjár er einhvers konar tragekómedía um vald og þrá og svo bætist auðvitað við að verkið gerist í Kópavogi, paradís millistéttarinnar, þar sem ein blá endurvinnslutunna getur sett allt í uppnám ef hún birtist fyrirvaralaust. Hvernig þarf maður að vera til að teljast gjaldgengur í slíku umhverfi, hvað er samþykkt og hvað lendir á jaðrinum eða handan hans, ýmsar slíkar spurningar vakna vonandi meðal áhorfenda. Spurningarnar eru þarfar en jafnframt óþægilegar og þeim er beint til okkar, bláeygðu hræddu barnanna sem þráum sólina og njótum hennar vonandi einhvern daginn.

Þorgerður E. Sigurðardóttir

Please reload

Follow Us
Please reload

Search By Tags
Please reload

Archive
  • Facebook Basic Square
  • Twitter Basic Square
  • Google+ Basic Square
This site was designed with the
.com
website builder. Create your website today.
Start Now